Smiðjur og verkefni á vegum grunn-, leik- og tónlistarskólanna

 

Listalest Listaháskóla Íslands – listasmiðjur

Nemendur listkennsludeildar LHÍ halda þverfaglegar fimm vinnusmiðjur fyrir unglinga í 8., 9. og 10. bekk í grunnskólum Fljótsdalshéraðs; Egilsstaðaskóla, Fellaskóla og Brúarásskóla, þar sem áhersla verður lögð á samruna listgreina. Listasmiðjurnar fara fram í Egilsstaðaskóla, íþróttahúsinu á Egilsstöðum og í  Sláturhúsinu dagana 10. til 12. september.

 

Afurðir vinnusmiðjanna verða svo verða settar upp sem listasýning þar sem allir  eru hjartanlega velkomnir! Sýningar frá öllum smiðjunum verða kl. 17.00 miðvikudaginn 12. september í Sláturhúsinu.

 

Nína og Gunnlaugur – listasmiðja

Nemendur 7. bekkjar grunnskólanna á Fljótsdalshéraði fara í Skaftfell myndlistarmiðstöð Austurlands á Seyðisfirði, 11. og 12. september þar sem þeim verða kynnt verk myndlistarmannanna Nínu Tryggvadóttur og Gunnlaugs Scheving, skoða þau í samhengi við listasöguna og jafnframt kryfja innihald, tjáningarform og listræna þróun þessara tveggja listamanna. 

 

Hver nemandi fær eftirprentun af einu verki frá hvorum listamanni til að vinna með. Myndinni er skipt upp í búta og mun hver og einn nemandi fá úthlutaðan einn bút úr myndinni til að stækka upp. Í lokin eru allir bútarnir festir saman þ.a. útkoman verður stór eftirmynd af frummyndin sem unnið var með.

 

„Hvað ef?“ - listasmiðja

Emelía Antonsdóttir Crivello stýrir sviðslistasmiðju fyrir nemendur 6. bekkjar grunnskólanna á Fljótsdalshéraði dagana 10. til 12. september. Lögð verður áhersla á nemendur vinni á skapandi hátt með sviðslistir, tónlist og myndlist undir þemanu „hvað ef?“. Saman vinna nemendur og kennarar frumsamið sviðsverk þar sem þessum miðlum er blandað saman. Smiðjan fer fram í Fellaskóla og íþróttahúsinu í Fellabæ. Sýning verður í íþróttahúsinu í Fellabæ 12. september kl. 14.00.

 

Myndskreytingar – listasmiðja

Nemendur 5. bekkjar grunnskólanna á Fljótsdalshéraði gera stuttar sögur eða frásagnir. Dagana 11. og 12. september stýrir Lára Garðarsdóttir listasmiðjum þar sem nemendurnir búa til litla myndasögu í þremur til sex römmum. Á þann hátt kynnast þeir myndmálinu og framvindu myndasögugerðar. 

 

Verk nemendanna verða til sýnis í Kaffiteríunni á Egilsstaðaflugvelli dagana 12. til 19. september.

 

Listverkefni 1. til 4. bekkjar

Nemendur 1. til 4 bekkjar grunnskólanna vinna að listtengdum verkefnum í skólastofum sínum með umsjónarkennurum sínum í september.

 

Söngur grunn- og leikskólabarna

Elsti árgangur leikskólanna og 1. Bekkur grunnskólanna æfir og flytur lögin Ég heyri svo vel og Ef þú ert súr, eftir Ólaf Hauk Símonarson, við undirleik kennara og nemenda tónlistarskólanna. Lögin eru útsett af Sigursveini Magnússyni. Lögin verði flutt á smiðjudegi leikskólanna í Sláturhúsinu menningarsetri 19. september.

 

Smiðjudagur leikskólanna

Næselsti árgangur leikskólanna vinnur listtengd verkefni í Sláturhúsinu menningarsetri 19. september undir stjórn Sigrúnar Hönnu Klausen. Verk nemendanna verða sýnd í Sláturhúsinu kl. 16 þennan dag.