F%C3%A1skr%C3%BA%C3%B0sfj%C3%B6r%C3%B0ur-Photo-Sebastian-Ziegler-155_Portrait.jpg

BRAS er menningarhátíð þar sem börnum er gefið tækifæri til að skapa og upplifa listir í víðasta samhengi. Hún var haldin í fyrsta skipti í september 2018 og sem fyrr segir hefur verið ákveðið að endurtaka leikinn í haust. 

Einkunnarorð hátíðarinnar eru Þora! Vera! Gera! enda er leiðarljós hátíðarinnar að hvetja börn á Austurlandi til að þora að vera þau sjálf og framkvæma á eigin forsendum. Markmiðið er að búa til vettvang þar sem öll börn á Austurlandi geta unnið saman á jafningjagrundvelli óháð móðurmáli, tungumálakunnáttu og búsetu. Unnið er þvert á þjóðerni, byggðakjarna og aldur.  

Önnur markmið með BRAS eru meðal annars þessi: 

  • Að börn kynnist fjölbreyttum aðferðum listanna við skapandi vinnu.

  • Að opna augu barna og ungmenna á Austurlandi fyrir mikilvægi samveru, samkenndar og samstöðu.

  • Að gefa börnum tækifæri til að kynnast á nýjan hátt og skilja hvert annað út frá nýjum forsendum.

  • Að auka virðingu og umburðarlyndi meðal barna og ungmenna.

  • Að börn meti að verðleikum fjársjóðinn sem felst í aðgengi að ólíkum menningarheimum.

  • Að nota listsköpunina til að byggja brýr á milli þjóðerna, aldurshópa og byggðakjarna.

Tjáning án tungumáls

Þemaverkefni BRAS 2019 – Tjáning án tungumáls - er innblásið af þeirri staðreynd að börnum, sem hafa annað tungumál en íslensku að móðurmáli, fjölgar hratt á Austurlandi. Það skiptir máli að tengja saman börn og ungmenni á milli byggðakjarna og að auka aðgengi að listsköpun fyrir börn sem búa í minnstu byggðakjörnunum.

Tjáning án tungumáls mun nýtast öllum þátttakendum sama hver bakgrunnur þeirra eða aðstæður eru. Þetta er leið til að byggja brýr bæði á milli menningarsamfélaga og byggðakjarna á Austurlandi og auka samstöðu og samgang barna óháð uppruna og búsetu.

Hátíðin í haust hefur þegar hlotið styrki frá Barnamenningarsjóði Íslands, þrjár milljónir króna, og auk þess hlaut hátíðin styrk upp á eina milljón frá samfélagssjóði Alcoa á Austurlandi.  

F%C3%A1skr%C3%BA%C3%B0sfj%C3%B6r%C3%B0ur-Photo-Sebastian-Ziegler-51.jpg
F%C3%A1skr%C3%BA%C3%B0sfj%C3%B6r%C3%B0ur-Photo-Sebastian-Ziegler-159.jpg

BRAS til framtíðar

Sem fyrr segir var BRAS haldin í fyrsta skipti í fyrra en ætlunin er að þróa verkefnið í þrjú til fjögur ár. Mikill tími fór í undirbúning fyrstu hátíðarinnar enda er BRAS samstarfs- og samvinnuverkefni skóla og sveitarfélaga á Austurlandi auk Skólaskrifstofunnar og margir lausir endar sem þarf að hnýta.   Þegar hátíðinni lýkur í haust er ætlunin að gera könnun á því hvernig til tókst. Í framhaldinu er ætlunin að endurskoða og móta heildarsýn um framtíð BRAS.

Þeir sem vilja taka þátt í BRAS 2019 geta skilað inn upplýsingum um verkefnin fyrir 10. júlí til verkefnastjóra Austurbrúar, Halldóru D. Hafþórsdóttur // dora@austurbru.is.

Að hátíðinni standa

Artboard 1@2x.png