Tonlistarmidstod.jpg

Áhersluverkefni Tónlistarmiðstöðvarinnar snýr að tjáningu í gegnum tónlist. Unnið er markvisst að því að hvetja börn til dáða í tónsköpun og verður því fylgt eftir með vinnusmiðjum undir leiðsögn fagfólks. Verkefnið er unnið í samstarfi við Upptaktinn, tónsköpunarverðlaun barna í 5.-10. bekk.

Verkefnið er þríþætt, en þátttaka grunnskólanna snýr að lið A:

A: Fyrirlestraröð sem kveikir áhuga á tónlistariðkun og tónlistarsköpun
Tónlistarstund (2 kennslustundir) fyrir börn í 5.-10. bekk á Austurlandi, viðburður ferðast milli skóla í september 2019. Markmiðið er að virkja frumsköpun hjá börnunum og hvetja þau til dáða í tónlistarsköpun (ekki ósvipað fyrirlestrum Jóns Hilmars sl. haust).

B: Upptakturinn á Austurlandi
Börn á Austurlandi fá tækifæri til að senda inn tónsmíð og vinna úr hugmyndum sínum undir leiðsögn listamanna eina helgi í október 2019. Höfundar valinna verka fá aðgang að tónsmiðjum í Tónlistarmiðstöðinni og í framhaldi tilnefnir dómnefnd einn ungan, austfirskan tónsmið sem hefur tryggt sæti í smiðjum á vegum Upptaktsins í Reykjavík.

C: Upptakturinn í Reykjavík
Eftirfylgni og umsjón með austfirska tónsmiðnum í Upptaktinum í Reykjavík í mars 2020. Þar fá ungir tónsmiðir leiðsögn nemenda úr Listaháskóla Íslands við útsetningu verka sinna. Verkin eru frumflutt af atvinnuhljóðfæraleikurum í Hörpu á Barnamenningarhátíð í Reykjavík að vori.

Markmið:

  • Að leyfa börnum á Austurlandi að finna að þau geti tjáð sig gegnum tónlist og að þau hafi rödd sem hlustað sé á.

  • Að styðja börn á Austurlandi í að tjá sig með tónlistarsköpun.

  • Að gefa börnum á Austurlandi tækifæri til að fá leiðsögn frá austfirsku fagfólki í tónlist og taka þátt í vinnustofu og tónleikum með fagfólki í Reykjavík.