SumarsyningarSlaturhussins_1080x1080_Sunnifa_2x.png

Fræðsluverkefnið byggir á annarri af tveimur sumarsýningum Sláturhússins 2019. Í sýningunni er sögð saga Sunnefu Jónsdóttur frá Geitavík í Borgarfirði sem skoða má sem óleyst sakamál frá 18. öld, en einnig sem óvenju spennandi sagnfræðisýningu og loks sem #metoo sögu frá fyrri öldum.

Sýningin um Sunnefu verður sögð á teiknuðum spjöldum, í sérhönnuðum ljósa- og hljóðheimi og með óvæntum “leikmunum”, í raun svokölluð upplifunarsýning þar sem unnið er með öll skynfæri gesta. Auk þessa verður viðbótarefni á sýningunni þar sem gestir geta hlustað á ýmis konar upplestur og horft á myndupptökur. Markmið verkefnisins er að sýna fram á hvernig hægt er að vinna með menningarsögu Austurlands í fræðslu og sköpun.

Sýningin um Sunnefu býður upp á fjölda nálgana þegar kemur að því að vinna úr þeim þemum og hugmyndum sem í henni búa.

MMF hefur ákveðið að horfa fyrst og fremst til þjóðsagna í fræðsluverkefninu en skólar geta tekið upp mörg önnur þemu, bæði sjálfstætt sem og í tengslum við þjóðsagnaáhersluna.

MMF mun senda leiðbeiningar til skóla innan skamms. Þær munu innihalda þjóðsöguna um Sunnefu og sýslumanninn Hans Wium og er gert ráð fyrir að nemendur verði búnir að lesa þjóðsöguna áður en þeir heimsækja sýninguna. Í heimsókninni munu nemendur fá að sjá sjálfa söguna sem þjóðsagan byggir á, þ.e. hvernig sagan var í raun og veru.

Við brottför fá nemendur í hendur aðra þjóðsögu og geta í framhaldi unnið með þá sögu líkt og gert er með sögu Sunnefu á sýningunni. Við þá rannsókn og úrvinnslu opnast fjöldi leiða til túlkunar, söguskoðunar, leiks- og tjáningar og jafnvel ættfræðirannsókna. Vonir standa til að skólar á Austurlandi noti þennan grunn til margvíslegs skólastarfs.

Tímabil verkefnis: 15. september – 15. október
Tímalengd: Gert er ráð fyrir að heimsókn á sjálfa sýninguna með umræðum og kynningum taki um 1,5 klst. Það er síðan undir skólum komið hvernig unnið verður úr verkefninu.
Aldur: Efri bekkir grunnskóla: 8., 9. og 10. Sýningin gæti vakið óhug hjá yngri börnum.
Hópastærð: Ekki er æskilegt að fleiri en 10 – 15 einstaklingar séu inni í sýningarrýminu sjálfu í einu.
Tengiliður: Kristín Amalía Atladóttir, forstöðumaður.