Fræðsluverkefni Skaftfells - myndlistarmiðstöð Austurlands

Nína og Gunnlaugur - Alls konar landslag

Listfræðingurinn Oddný Björk Daníelsdóttir fræðir nemendur á miðstigi um ævistarf Nínu Tryggvadóttur (1913-1968) og Gunnlaugs Scheving (1904-1972).

Lykilhugtök: myndbygging, sjónarhorn, for-, mið- og bakgrunnur, litasamsetning, hlutbundið og óhlutbundið.

Í kjölfarið verður unninn uppstækkuð mynd eftir Nínu og Gunnlaug sem nemendur vinna saman.

Verkefnið er sniðið fyrir nemendur á miðstigi í grunnskóla og er tíunda fræðsluverkefni miðstöðvarinnar.

 

Fræðsluverkefni Menningarmiðstöð Fljótdalshéraðs

Leikfangasýningin Gull og gersemi verður önnur af tveim fræðslusýningum Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs. Þar má fá yfirsýn yfir þróun barnaleikfanga á umliðinni öld en munir eru fengnir að láni frá einstaklingum sem og frá Minjasafni Austurlands.

Hin fræðslusýningin er yfirlitssýning á verkum listamannsins Arons Kale. Aron, sem var valinn listamaður ársins hjá List án landamæra er einstakur listamaður sem hefur sérstæða listræna sýn sem hann notar til miðlunar og samskipta.

Börnum af öllu Austurlandi verður boðið að koma og fá leiðsögn um sýningarnar tvær og vinna fræðsluverkefni undir leiðsögn.

Fræðsluverkefni Tónlistarmiðstöðvarinnar

Straumaskólinn verður með smiðjur á Austurlandi fyrir ungmenni á aldrinum 14-20 ára helgaða sköpunarkraftinum, en smiðjuna leiða tónlistarfólkið Kira Kira - Kristín Björk Kristjánsdóttir og Futuregrapher - Árni Grétar.

Samstarf, spuni, hljóðskúlptúr, samsuða listgreina og umgengni við sköpunarkraftinn er meðal þess sem skoðað verður í smiðjunni.

Á staðnum verður litríkt safn af spennandi rafhljóðfærum, hljómborðum, trommuheilum, samplerum og alls konar blikkandi græjum sem allir fá að prófa, spinna með og búa til lítil lög eða epíska ópusa saman á staðnum!

Allir geta verið með, engin fyrri reynsla af tónlistarvinnslu nauðsynleg.